Sport

Tinna sjöunda konan sem nær að vinna þrefalt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Helgadóttir úr TBR var sigursæl um helgina.
Tinna Helgadóttir úr TBR var sigursæl um helgina. Mynd/Vilhelm

Tinna Helgadóttir úr TBR varð í gær aðeins sjöunda konan í sögu Meistaramóts Íslands í badminton til þess að vinna Íslandsmeistaratitla í öllum þremur flokkunum sem keppt er í.

Tinna vann Karitas Ósk Ólafsdóttir úr ÍA í úrslitaleik einliðaleiksins og vann síðan tvíliðaleikinn með Erlu Björg Hafsteinsdóttur og tvenndarleik með Magnúsi Inga bróður sínum.

Ragna Ingólfsdóttir náði síðast að vinna þrefalt á Meistaramótinu fyrir tveimur árum en þá var liðin áratugur síðan að Vigdís Ásgeirsdóttir vann þrefalt árið 1997.

Tinna tapaði ekki hrinu á mótinu en hún spilaði alls ellefu leiki á þessum tveimur dögum og vann því 22 hrinur í þessum 11 leikjum. Stigatalan var 462-285 henni og hennar pörum í vil.

Jafnasti leikurinn og sá sem tók lengstan tíma var úrslitaleikur tvenndarleiksins á móti þeim Vigdísi Ásgeirsdóttur og Elsu Nielsen sem höfðu báðar unnið þrefalt á Meistaramótinu, Elsa árið 1994 og Vigdís þremur árum síðar.

Tinna og félagi hennar Erla Björg Hafsteinsdóttir unnu hrinurnar 21-19 og 21-19 í leik sem tók 42 mínútu. Það tók Tinnu 31 mínútu að tryggja sér sigur í einliðaleiknum og 32 mínútur að vinna tvíliðaleikinn með Magnúsi bróður sínum.

Tinna spilaði alls í 297 mínútur á mótinu eða í 4 klukkutíma og 57 mínútur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×