Körfuboltaáhugamenn fá svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð á Stöð 2 Sport í kvöld þegar tveir toppleikir verða sýndir beint á stöðinni.
Veislan hefst í Keflavík klukkan 19:05 þar sem Íslandsmeistarar Keflavíkur taka á móti meistaraefnunum í KR í Iceland Express deildinni.
Hér er á ferðinni fyrsta beina útsending Stöðvar 2 Sport frá úrvalsdeildinni í vetur og þó fyrr hefði verið.
Á miðnætti verður svo skipt yfir til Philadelphia í Bandaríkjunum þar sem heimamenn í 76ers taka á móti San Antonio Spurs í NBA deildinni.
Hálftíma fyrir útsendinguna er þátturinn NBA Tilþrif á dagskrá, sem er kjörin upphitun fyrir NBA leik kvöldsins.