Þjóðfundurinn sem haldinn var síðastliðinn laugardag sýndi að mörgum finnst kominn tími til þess að fólk snúi saman bökum og hyggi að framtíðinni. Á þjóðfundinum var jákvæðni og framtakssemi í öndvegi. Það er viðhorf sem þjóðin þarf mjög á að halda og allir ættu að fylkja sér um, óháð stjórnmálaskoðunum.
Í þessari viku verða haldnir yfir 100 viðburðir á Íslandi undir merkjum Alþjóðlegrar athafnaviku. Þessi þátttaka sýnir þá athafna og sköpunargleði sem þjóðin býr yfir. Hvort sem fólk finnur orku sinni farveg í rekstri fyrirtækja, sköpun menningar, nýsköpun í vísindum eða með því að vinna góðverk fyrir náunga sinn þá getur hver og einn komið miklu til leiðar og haft jákvæð áhrif áumhverfi sitt og samfélag. Um þetta er heldur ekki deilt, hvar sem menn standa stjórnmálum.
Hið öfluga sjálfboðaliða- og hugsjónastarf sem fólk innir af hendi um land allt um þessar mundir er svo sannarlega þakkarvert. Við hvetjum alla til að styðja jákvætt frumkvæði og taka þátt í því. Það er mikilvægt að við stöndum saman um þá fjölmörgu hluti sem við erum öll sammála um.
Birkir Jón Jónsson er varaformaður Framsóknarflokksins; Dagur B. Eggertsson er varaformaður Samfylkingarinnar; Katrín Jakobsdóttir er varaformaður Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs; og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir; varaformaður Sjálfstæðisflokksins.


