„Við vorum bara skítlélegir og það var ömurlegt að horfa upp á þetta. Það er í raun það eina sem mér dettur í hug að segja núna," sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, eftir 76-63 tap liðsins í Suðurnesjaslag gegn Njarðvík í Iceland Express-deild karla í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn ágætlega en misstu fljótt dampinn og voru ávallt skrefi á eftir Njarðvíkingum eftir það og því fór sem fór.
„Mér fannst við bara vera kraftlausir, sérstaklega sóknarlega og varnarlega á köflum. Mér fannst Njarðvíkingar til að mynda bara geta tekið þau fráköst sem þeir vildu taka. Þeir eru með flott lið og voru bara betri en við í kvöld. Svo einfalt er það nú," sagði Guðjón ósáttur.