Innlent

Fékk Benzinn aftur og blóðugar sprautunálar í kaupbæti

Bíl Heimis Sverrissonar var stolið í síðustu viku. Hann hefur nú endurheimt gripinn og er þakklátur fyrir það. Fréttablaðið/Anton
Bíl Heimis Sverrissonar var stolið í síðustu viku. Hann hefur nú endurheimt gripinn og er þakklátur fyrir það. Fréttablaðið/Anton

Fréttablaðið sagði frá því um helgina að Benz-bifreið kvikmyndagerðarmannsins Heimis Sverrissonar hafi verið stolið fyrir utan heimili hans í síðustu viku. Bíllinn er nú fundinn, en glöggur lesandi rakst á hann á bak við Austurbæjarskóla á laugardag.

„Það var maður sem hringdi í mig strax á laugardagsmorgni og hafði þá rekist á bílinn á bak við skólann. Ástandið á bílnum er ekki gott, það var búið að stela öllu innan úr honum sem var einhvers virði auk þess sem hann var allur úti í blóði, sprautunálum, sprautum og blóðugum pappír," segir Heimir.

Bíllinn var einnig klesstur að framan eftir árekstur við tökubíl tökuliðs kvikmyndarinnar Gauragang, en þjófarnir höfðu ekið bílnum aftan á tökubílinn.

Heimir segist ekki enn hafa lagt í það að þrífa bílinn eftir þjófana en gerir ráð fyrir að bíllinn fari á verkstæði í vikunni.

„Ég hafði mig ekki í þetta um helgina, en er í dag búinn að vera að leita að nýju húddi og öðrum varahlutum svo ég geti farið að tjasla honum saman," segir Heimir sem er þakklátur fyrir að hafa endurheimt gripinn.

„Ég er mjög þakklátur að bíllinn hafi fundist þokkalega heill. Leitin að þjófunum er nú í höndum lögreglunnar, þeir skildu í það minnsta eftir sig nóg af sönnunargögnum, bæði blóði og fingraförum." - sm


Tengdar fréttir

Frægri Benz-bifreið stolið

Bíl kvikmyndagerðarmannsins Heimis Sverrissonar var stolið fyrir utan heimili hans á Njálsgötu á miðvikudaginn var. Bíllinn er grænn Benz af árgerðinni 1979 og því um antíkgrip að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×