Skoðun

Enn um „Lebensraum“

Haukur Hauksson gerir athugasemdir við grein mína um A-Evrópu stækkun ESB og hvernig sú stækkun hafði áhrif á þróun mála í Úkraínu. Ég fagna skrifum Hauks enda eru fáir sem þekkja þessi lönd betur en hann. Ef til vill tók ég of stórt upp í mig varðandi Úkraínu og biðst ég forláts á því. Ég byggði þessi ummæli á fréttaflutningi frá landinu á þeim tíma en þá var mikið talað um áhyggjur Rússa af þróun mála í Úkraínu. Hins vegar er það staðreynd að forráðamenn Evrópusambandsins vöruðu þá sterklega við því að skipta sér af innanríkismálum landsins. Það hlýtur að hafa haft áhrif á Rússana að landamæri nýju aðildarlanda ESB þ.e. Póllands, Slóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu liggja öll að Úkraínu.

Málefni Úkraínu voru hins vegar algjört aukaatriði í greininni og breyta engu um megintilgang skrifa minna. Það er að benda á þá miklu og jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað í lýðræðis- og efnahagsumbótum í bæði S- og A-Evrópu í tengslum við stækkun Evrópusambandsins. Einnig að benda á hve ósmekklegt það er hjá Ögmundi Jónassyni að bendla stækkun ESB við hugmyndafræði nasista. „Lebensraum" er hugtak sem Adolf Hitler fann upp á eins og Haukur bendir vel á í grein sinni. Sú ógeðfellda lífssýn sem birtist í skrifum Hitlers á ekkert skylt við lýðræðishefð Evrópusambandsins. Það er því von mín að andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu grípi ekki til svona lágkúrulegra samlíkinga þegar jafn mikilvægt mál og tengsl Íslands við Evrópu ber á góma. Ég fagna því þessari grein Hauks enda gerir hún ekkert annað en að skerpa á umræðunni um þessi mál.




Skoðun

Sjá meira


×