Rannsóknir á ösku frá Eyjafjallajökli eru nú stundaðar í Snowdon þjóðgarðinum í Wales sem dregur nafn sitt af hæsta fjalli landsins. Vísindamenn safna þar gras- og regnvatnssýnum í þeim tilgangi að meta umhverfisáhrif öskufallsins á svæðinu.
Dylan Lloyd, sérfræðingur hjá umhverfisskrifstofunni CCW, segir í viðtali við dagblaðið Daily Post að ekkert bendi til þess að öskufallið frá eldgosinu í Eyjafjallajökli hafi haft skaðleg áhrif þar á bæ. Hins vegar sé rannsóknin skammt á veg komin og of snemmt að fullyrða nokkuð um áhrifin.
Vísindamennirnir sjá rannsóknina ekki síst sem undirbúning frekari náttúruhamfara hér á landi.
„Ef annað eldgos verður og annað eldfjall í næsta nágrenni er mjög virkt, þá höfum við aflað mikilvægra gagna til að meta áhrif þess,“ segir Alex Turner, einn vísindamanna CCW.
Vísindamennirnir eru ekki síst að mæla magn flúors í jarðveginum, en eins og komið hefur fram í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli getur það haft neikvæð áhrif á skepnur.
Rannsóknamiðstöðin stendur hátt yfir stöðuvatninu Llyn Llydow, í austurhlíðum Snowdon-fjallsins. Þar hafa rannsóknir á loftslagsáhrifum verið stundaðar undanfarin ár. Öskurannsóknirnar eru því viðbót við hefðbundin rannsóknastörf hópsins, eins og plöntu- og snjólagarannsóknir. - shá