Innlent

Þorvaldur Lúðvík yfirheyrður

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga fjárfestingarbanka, er einn þeirra sem hefur verið yfirheyrður í morgun í Glitnismálinu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort Þorvaldur Lúðvík hefur verið í skýrslutökum vegna gruns um refsiverða háttsemi eða hvort hann hefur stöðu vitnis. Í morgun var gerð húsleit hjá höfuðstöðvum Saga fjárfestingarbanka á Akureyri. 

Málið er tengt viðskiptum Glitnis við eignarhaldsfélagið Stím árið 2007, en Saga átti 6% hlut í Stím og var félagið jafnframt skráð til heimilis þar. Þá keypti Stím hlutabréf í Glitni og FL fyrir 25 milljarða króna með engu nema veði í bréfunum sjálfum. Sérstakur saksóknari hefur staðið í umfangsmiklum húsleitum og yfirheyrslum vegna málsins í dag.

Ólafur Þ. Hauksson sérstakur saksóknari, hefur ekkert viljað tjá sig um nöfn þeirra sem eru í skýrslutökum eða annað sem tengist málinu. Hann segist ætla að senda frá sér fréttatilkynningu innan skamms en mun ekki tjá sig opinberlega þangað til.


Tengdar fréttir

Handtökurnar tengjast Stím málinu

Sérstakur saksóknari hefur handtekið menn í tengslum við rannsóknina á Glitnismálinu, samkvæmt heimildum fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×