Jón Ásgeir Jóhannesson sendi frá sér yfirlýsingu vegna afsagna sinna úr stjórnum bresku fyrirtækjanna House of Fraser og Iceland Foods. Þar segir að ákvörðun um afsagnirnar hafi verið tekin í kjölfar málsóknar slitastjórnar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri og fólki sem honum tengist.
„Þessi ákvörðun er tekin með eftirsjá, til að forðast það að félögin verði fyrir óréttmætum skaða á meðan hann [Jón Ásgeir] verst ásökunum Glitnis. Hr. Jóhannesson á engin hlutabréf í félögunum," segir í yfirlýsingunni og bent er á að hann hyggist verjast af fullum krafti gegn hinum fölsku ávirðingum og árétta sakleysi sitt. Hann hyggist ekki tjá sig frekar á meðan á málarekstrinum stendur.
„Þetta er ekki eingöngu að hans frumkvæði, heldur ekki síður vegna þrýstings frá okkur. Við höfum beitt okkar áhrifum í því að Jón Ásgeir gangi úr stjórnum House of Fraser og Iceland," segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans. Skilanefnd bankans á hlut BG Holding, sem áður var í eigu Baugs Group, í House of Fraser og Iceland Foods og sat Jón Ásgeir í stjórnum þeirra í umboði endurskoðunarfyrirtækisins PriceWaterhouseCooper (PWC), sem fer með bú BG Holding fyrir skilanefndina. Páll segir skilanefndina hafa komið því á framfæri við forsvarsmenn PWC að Jón Ásgeir viki úr stjórnum félaganna. „Þetta er ekkert í tengslum við stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur honum," að sögn Páls. - sh/-jab