Hannes Þór Helgason sem myrtur var á heimili sínu fyrir rúmri viku verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði næstkomandi fimmtudag klukkan 13.
Mörg hundruð manns söfnuðust saman við Lækinn í Hafnarfirði í gærkvöldi til að minnast Hannesar. Andrúmsloftið var tilfinningaþrungið, að sögn viðstaddra. Kertum var fleytt á lækinn og Flensborgarkórinn söng lög. Fjölskylda Hannesar var meðal viðstaddra og einkenndi mikill samhugur og samkennd þessa minningarstund.
Nýliðna helgi notaði lögregla til að fara yfir gögn sem aflað hefur verið, bæði með tæknirannsóknum á vettvangi og annars staðar frá. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, segir í Fréttablaðinu í dag talsvert hafa borist af upplýsingum og ábendingum frá almenningi, sem verið sé að vinna úr samhliða fleiri þáttum málsins. Hann segir á fjórða tug manna hafa mætt hjá lögreglu. Enginn sé í haldi grunaður um verknaðinn.