Bandarískir fjölmiðlar hafa grafið það upp að Blake Griffin, leikmaður Los Angeles Clippers, hefur verið kosinn besti nýliði ársins í NBA-deildinni. Þetta kemur ekki mikið á óvart enda átti þessi mikli troðslukóngur frábært fyrsta tímabil í deildinni eftir að hafa misst af tímabilinu á undan vegna meiðsla.
Griffin var með 22,5 stig, 12,1 frákast og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik en hann spilaði alla 82 leikina á tímabilinu. Griffin var líkafastagestur í samantektum NBA-deildarinnar á flottustu tilþrifunum og átti alltaf tvær til þrjár frábærar troðslur í hverjum leik.
Giffin var valinn besti nýliði Vesturdeildarinnar alla sex mánuðina á tímabilinu og varð þar með fyrsti leikmaðurinn til að ná þar fullu húsi síðan að Chris Paul gerði það New Orleans tímabilið 2005-06.
Griffin varð í fjórða sæti í fráköstum og í tólfta sæti í stigaskori en enginn annar nýliði komst inn á topp 45 í stigaskori og inn á topp 20 í fráköstum.
Griffin náði þó ekki að breyta gengi liðsins mikið en Los Angeles Clippers liðið missti af úrslitakeppninni í þrettánda sinn á síðustu fjórtán árum og vann aðeins 32 af 82 leikjum sínum á leiktíðinni. Griffin sá hinsvegar til þess að Clippers-liðið var eitt vinsælasta liðið í deildinni með tilþrifum sínum inn á vellinum.
