Derrick Rose setur með þessu nýtt NBA-met en hann verður yngsti leikmaður sögunnar til að vera kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar. Rose var með 25 stig og 7.7 stoðsendingar að meðaltali á tímabilinu og hjálpaði Chicago Bulls að ná besta árangri allra liða í deildarkeppninni.
Rose er aðeins 22 ára gamall og bætir met Wes Unseld sem var 23 ára þegar hann sem leikmaður Baltimore Bullets var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn tímabilið 1968-69. Derrick Rose kemst líka í hóp með Michael Jordan en þeir eru einu leikmennirnir í sögu Chicago Bulls sem hafa fengið þessi virtu verðlaun.

Michael Jordan var eini leikmaður Bulls sem hafði náð slíku á einu tímabili en þegar Jordan var stigahæstur tímabilið 1988-89 (32,5 í leik) þá varð hann einnig í 10. sæti í stoðsendingum.
Rose var einnig með 4,1 frákast að meðaltali í leik en það eru aðeins sex aðrir leikmenn í sögu NBA sem hafa náð því að vera með að minnsta kosti 25 stig, 7,7 stoðsendingar og 4 fráköst að meðaltali í leik á heilu tímabili. Hinir eru Michael Jordan, Oscar Robertson, Jerry West, Larry Bird, Dwyane Wade og LeBron James.