Körfubolti

Valsmenn fengu aftur skell á heimavelli - Keflavík vann með 30 stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson og Charles Michael Parker.
Magnús Þór Gunnarsson og Charles Michael Parker. Mynd/Baldur Beck
Valsmenn töpuðu þriðja leiknum í röð í Iceland Express deild karla þegar Keflvíkingar komu í Vodafonehöllina í kvöld og unnu 30 stiga stórsigur, 110-80. Bæði Reykjanesbæjarliðin hafa því unnið stóra sigri á Hlíðarenda í fyrstu tveimur heimaleikjum nýliða Vals í vetur.

Steven Gerard Dagustino skoraði 34 stig fyrir Keflavík í kvöld og Charles Michael Parker var með 22 stig. Magnús Þór Gunnarsson skoraði síðan 18 stig.  Darnell Hugee var með 26 stig og 10 fráköst hjá val og Austin Magnus Bracey bætti við 19 stigum. Curry Collins skoraði hinsvegar aðeins 5 stig á 28 mínútum.

Valsmenn byrjuðu vel og komust í 9-3 og 11-6 þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum. Steven Gerard Dagustino setti þá tvær þriggja stiga körfur í röð og Keflvíkingar voru komnir í gang. Keflavík var síðan komið með 12 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, 32-20, og umræddur Steven Gerard Dagustino var þegar kominn með fjóra þrista og 16 stig.

Keflvíkingar og Dagustino héldu áfram í öðrum leikhlutanum sem Keflavíkurliðið vann 28-19 og var því komið með 21 stigs forskot í hálfleik, 60-39. Dagustino hitti úr 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum í hálfleiknum og skoraði 29 stig á 17 mínútum.

Seinni hálfleikurinn var algjört formsatriði en Keflvíkingar unnu bæði þriðja og fjórða leikhluturinn og munurinn endaði því í 30 stigum.



Valur-Keflavík 80-110 (20-32, 19-28, 21-23, 20-27)

Valur: Darnell Hugee 26/10 fráköst, Austin Magnus Bracey 19/5 fráköst, Igor Tratnik 13/5 fráköst, Kristinn Ólafsson 5, Curry Collins 5, Birgir Björn Pétursson 4/4 fráköst, Benedikt Blöndal 3, Alexander Dungal 3, Bergur Ástráðsson 2.

Keflavík: Steven Gerard Dagustino 34, Charles Michael Parker 22/8 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 18/6 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 9, Jarryd Cole 7/7 fráköst, Gunnar H. Stefánsson 6, Valur Orri Valsson 6, Ragnar Gerald Albertsson 4, Hafliði Már Brynjarsson 3, Almar Stefán Guðbrandsson 1.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×