Grein um plastbarkaígræðslu sem íslenskur læknir tók þátt í hefur nú verið birt í einu virtasta vísindatímariti heims, the Lancet. Barkaþeganum, sem er nemandi við Háskóla Íslands, heilsast vel.
Greinin er unnin af Tómasi Guðbjartssyni, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og hjarta- og lungnaskurðlækni á Landspítalanum ásamt vísindamönnum við fremstu rannsóknarstofnanir og háskóla heims um fyrstu plastbarkaígræðsluna sem fram fór á Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Svíðþjóð í sumar.
Það var Andemariam Beyene, 36 ára Erítreu búi búsettur hér á landi, sem gekkst undir aðgerðina, en hann greindist með krabbamein í hálsi og þurfti að fjarlæga æxli á stærð við golfkúlu auk hluta af barkanum.
Aðgerðinni stjórnaði Paolo Macchiarini en Tómas, læknir Beyenes, tók þátt í henni.
Beyene leggur stund á jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og stefnir að meistaraprófi í greininni. Hann er samkvæmt tilkynningu frá Háskóla Íslands ákaflega ánægður með aðgerðina og lifir nú eðlilegu lífi hér á landi ásamt konu sinni og tveimur börnum.