Fótbolti

Góður útisigur hjá Degi og Alexander

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Nordic Photos / Getty Images
Füchse Berlin hélt uppteknum hætti í þýsku úrvalsdeildinni með góðum útisigri á Lemgo í kvöld, 31-27. Alexander Petersson skoraði sjö mörk fyrir Füchse Berlin og var markahæstur en Dagur Sigurðsson er þjálfari liðsins.

Berlínarliðið er sem fyrr í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en liðið er með 29 stig, þremur á eftir Kiel sem á leik til góða. Þessi lið mættust í bikarnum í síðustu viku og vann þá Kiel ellefu marka stórsigur.

Nánast jafnt var á öllum tölum framan af í leiknum og staðan 15-14 fyrir Lemgo í hálfleik.

Füchse Berlin náði þó að síga fram úr á síðasta stundarfjórðungnum og Alexander kom liðinu í þriggja marka forystu, 24-21, með glæsilegu marki þegar um ellefu mínútur voru til leiksloka. Það var hans sjötta mark í leiknum.

Heimamenn neituðu þó að leggja árar í bát og náðu að minnka muninn í eitt mark, 27-26, þegar þrjár mínútur voru eftir. En eins og svo oft áður hjá Füchse Berlin í vetur kom Spánverjinn Iker Romero sterkur inn í lokin og jók forystuna aftur í tvö mörk í næstu sókn.

Eftir það leit Berlínarliðið ekki til baka og Alexander tryggði liðinu endanlega sigur með sínu sjöunda marki í leiknum hálfri mínútu fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×