Fótbolti

Umboðsmaður Klose segir að Real Madrid hafi áhuga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miroslav Klose fagnar hér marki með þýska landsliðinu.
Miroslav Klose fagnar hér marki með þýska landsliðinu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Real Madrid hefur áhuga á því að fá til sín þýska framherjann Miroslav Klose hjá Bayern Munchen en félagið leitar nú að framherja í staðinn fyrir Argentínumanninn Gonzalo Higuain sem verður frá út þetta tímabil vegna meiðsla.

Miroslav Klose er orðinn 32 ára gamall en hann hefur skorað 58 mörk í 105 landsleikjum fyrir Þjóðverja þar af fjórtán markanna í úrslitakeppni HM. Klose hefur skorað meira en 120 mörk í þýsku úrvalsdeildinni með Kaiserslautern, Werder Bremen og Bayern.

Spænska blaðið AS segir að Klose sé á óskalista Jose Mourinho og umboðsmaður leikmannsins staðfesti það við Bild að hann hafi fengið fyrirspurn frá Real Madrid en málið sé enn á frumstigi.

Klose ætlar sér að verða með þýska landsliðinu á EM 2012 en það gæti spillt fyrir honum í landsliðinu þurfi hann að sitja mikið á bekknum hjá Real Madrid. Klose hefur skorað 6 mörk í fyrstu 4 leikjum Þjóðverja í undankeppninni.

Klose hefur reyndar verið mikið meiddur á þessu tímabili en hefur skorað 5 mörk í 12 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu. Klose á þó enn eftir að skora í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu þrátt fyrir að vera búinn að spila í 453 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×