
„Það liggur fyrir að það er fákeppni í þessari framleiðslu og slíkt er ekki til góðs fyrir neytendur,“ segir Jóhannes. „Hins vegar á ég eftir að sjá hvort það standist atvinnufrelsi stjórnarskrárinnar að setja hömlur á atvinnurekstur með þeim hætti að mælast til þess að fjölga búum og minnka þau. Um það hef ég efasemdir.“
Starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins gaf nýverið út skýrslu um alifuglarækt á Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar voru meðal annars þær að með því að minnka og fjölga búum, myndi skapast heilbrigðari samkeppni á markaðnum og sporna við alvarlegum salmonellusýkingum, sem koma frekar upp í stærri búum.
Jóhannes segir smærri bú dýrari í rekstri sem geri þau óhagstæðari neytendum. Fákeppni ríki bæði á kjúklinga- og svínakjötsmarkaðnum og aukinn innflutningur sé ein leið til þess að sporna við því vandamáli.
„Í stað þess að gera framleiðsluna óhagkvæmari með minni búum, ætti þá ekki að viðra samkeppnina betur með auknum innflutningi?“ spyr Jóhannes.- sv