Skoðun

Einstakt tækifæri Bændasamtakanna

Jón Sigurðsson skrifar
Bændasamtökin og landbúnaðarráðherra vilja stöðva viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þess vegna krefjast þau þess að tollar verði áfram lagðir á evrópskar landbúnaðarvörur eða innflutningur bannaður – þvert gegn samþykkt Alþingis um aðildarumsóknina og einnig þvert gegn meginreglum ESB.

Utanríkisráðherra hefur brugðist til andsvara. Hann bendir á að það geti komið út á eitt fyrir bændur þegar vöruverð til neytenda lækkar en ríkisstyrkir ásamt Evrópustyrkjum til bænda hækki þá verulega á móti. Varla talar utanríkisráðherra svo skýrt nema fyrir liggi sterkar líkur eða fullvissa um slíkan samningsárangur.

Þetta eitt eru stórtíðindi. Bændasamtökin hljóta að óska eftir nánari upplýsingum um þetta, og þ. á m. hvort þetta verður sérstakt samningsákvæði eða hluti af svonefndum Norðurslóðastuðningi.

En Bændasamtökin hljóta einnig að leggja áherslu á fleiri atriði í viðræðunum um aðild Íslands að ESB. Meðal slíkra áherslumála hljóta að vera þessi:

1 Vernd gegn dýrasjúkdómum, en Íslendingar hafa hörmulega reynslu af þeim.

2Vernd fyrir íslenskum búfjárstofnum, en Íslendingar rækta sérstök kyn nautgripa, hrossa, sauðfjár, geita, hunda og hænsna.

3 Ákvæði sambærileg á við þau sem gilda nú innan ESB um landbúnað á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum, og um atvinnurekstur, fasteignir og jarðeignir á Möltu og Álandseyjum.

Evrópusambandið er mjög metnaðarfullt varðandi varnir gegn dýrasjúkdómum. ESB er einnig mjög áhugasamt og metnaðarfullt varðandi vernd og öryggi fyrir fjölbreytni í lífríki. Landbúnaður á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum nýtur sjálfræðis og sérstöðu samkvæmt 349. gr. aðalsáttmála ESB. Reglur ESB banna kaup á lóðum, jörðum, húsum eða öðrum eignum á Möltu og Álandseyjum nema kaupandi hafi lögheimili og reglulega búsetu á staðnum.

Þegar þessi atriði koma til skoðunar á vettvangi ESB er ekki talað um árekstur við fjórfrelsið, heldur er því vikið til hliðar vegna þessara forgangsákvæða. Framkvæmd slíkra forgangsákvæða skiptir miklu hér á landi. Ljóst er t.d. að íslenskir búfjárstofnar verða því aðeins verndaðir að bændur hafi rekstrarlegar forsendur til að nýta þá. Án slíkra ákvæða verður einnig ókleift að verjast uppkaupum á hlunnindajörðum.

Bændasamtökin eiga nú fágætt – líklega einstætt – tækifæri til að hafa veruleg áhrif á samningsferlið um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þau geta tryggt mikilvæga hagsmuni íslenskra bænda á grundvelli ýmissa gildandi reglna ESB. Því verður varla trúað að Bændasamtökin vilji láta þetta undir höfuð leggjast.




Skoðun

Sjá meira


×