Öll afgreiðsla vegna brota er varða sóðaskap yrði mun hraðari og skilvirkari ef Íslendingar færu að dæmi Svía en þar getur nú lögreglan sektað menn á staðnum séu þeir staðnir að sóðaskap.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að hér á landi hafi lögreglan ekki heimild til að sekta menn á staðnum en það myndi flýta fyrir afgreiðslu slíkra máli væri það hægt. „En annars er gott lag á þessu eins og þetta er núna,“ segir hann.
Ekki koma mörg slík brot á borð lögreglu en þeim fer þó fjölgandi. Skráð voru níutíu brot gegn lögreglusamþykktum á höfuðborgarsvæðinu í fyrra og eru fjögur þeirra fyrir sóðaskap.
Það sem af er ári eru þessi brot orðin fimm, þar af eru tvö fyrir að brjóta gler á almannafæri. Samtals eru brot á lögreglusamþykktum, það sem af er þessu ári, fimmtíu og níu.- jse
Fimm sinnum sektað fyrir sóðaskap í ár
