Fjöldi látinna eftir hryðjuverkin í Noregi er nú 77, eftir að einn lést af sárum sínum á spítala. Allir aðrir sem liggja á spítala eftir hryðjuverkin í Noregi fyrir viku eru nú sagðir úr lífshættu. Fimmtán eru þó enn taldir alvarlega slasaðir. Þá hafa kennsl verið borin á alla þá sem létust og engra er lengur saknað.
Norðmenn minntust þess í gær að vika var liðin frá hryðjuverkunum sem urðu 77 manns að bana í Útey og í miðborg Óslóar. Verkamannaflokkurinn stóð fyrir minningarathöfn um hina látnu og töluðu bæði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra og formaður flokksins, og Eskil Pedersen, formaður ungliðahreyfingar flokksins, í minningarathöfninni.
„Vika er liðin frá því að illskan réðst á okkur," sagði Stoltenberg við minningarathöfnina. Leiðtogum jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndunum var boðið og tók Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra meðal annars þátt í athöfninni.
Minningarathöfn var einnig haldin í einni af moskum Óslóar og Stoltenberg hélt einnig ræðu þar. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á sameinaðan Noreg. „Við verðum eitt samfélag. Þvert á trúarbrögð, uppruna, kyn og stöðu." Hann sagði að hinir látnu yrðu heiðraðir með því að virða trú annarra og leyfa fjölbreytninni að blómstra. Fyrstu fórnarlömb árásanna voru borin til grafar í gær og minntist Stoltenberg þeirra sérstaklega. Hin átján ára gamla Bano Rashid og hinn nítján ára Ismail Haji Ahmed voru bæði skotin til bana í Útey.
Breivik var fluttur úr fangelsi í yfirheyrslur hjá lögreglu í gær. Fram að því hafði hann aðeins verið yfirheyrður í sjö klukkustundir í síðustu viku. Lögreglan sagði margar nýjar upplýsingar komnar fram í dagsljósið.
thorunn@frettabladid.is
