Fótbolti

Hoffenheim búið að selja besta framherjann sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vedad Ibisevic.
Vedad Ibisevic. Nordic Photos / Getty Images
Hoffenheim, lið Gylfa Þórs Sigurðssonar í þýsku úrvalsdeildinni, hefur ákveðið að selja sinn helsta framherja til Stuttgart.

Sá heitir Vedad Ibisevic og er Bosníumaður. Hann hefur skorað fimm mörk á tímabilinu til þessa og er markahæstur í liðinu ásamt Brasilíumanninum Roberto Firmino. Ibisevic hefur þó aðeins spilað tíu leiki á tímabilinu en Firmino sautján.

Gylfi Þór er nú í láni hjá Swansea í ensku úrvalsdeildinni en hann var markahæsti maður Hoffenheim í sumar. Meiðsli settu strik í reikninginn hjá honum í upphafi tímabilsins og fékk hann lítið að spila eftir að hann varð heill á ný.

Aðeins fjórir leikmenn hafa skorað átján deildarmörk Hoffenheim á tímabilinu og því mátti Hoffenheim ekki við því að missa Ibisevic. Hins vegar var ákveðið að ganga að tilboði Stuttgart sem er sagt vera upp á 5,5 milljónir evra, þrátt fyrir  yfirlýsingar eigandans Dietmar Hopp fyrr í vikunni að hann væri mótfallinn sölunni.

Gengi Hoffenheim á tímabilinu hefur ekki verið frábært en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum sínum í deildinni. Liðið er þó í áttunda sæti með 23 stig og siglir því lygnan sjó í bili.

Gylfi Þór er samningsbundinn Hoffenheim til 2014 en gæti gert langtímasamning við Swansea ef félagið ákveður að kaupa hann í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×