Körfubolti

Keflavík sendi inn kæru til KKÍ vegna bikarleiksins gegn Njarðvík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Keflavíkur.
Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Keflavíkur. Mynd/Anton
Njarðvík mun líklega ekki spila í undanúrslitum Powerade-bikarkeppni kvenna eins og áætlað var þar sem að framkvæmd leik liðsins gegn Keflavík í fjórðungsúrslitum hefur verið kærð.

Njarðvík vann leikinn, 78-72, en í dag sendu Keflvíkingar inn kæru til Körfuknattleikssambands Íslands vegna framkvæmd leiksins, eins og það er orðað á heimasíðu KKÍ. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Rúv en þar vildi Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, ekki tjá sig um efnislegt innihald kærunnar að öðru leyti.

Það vildi Birgir Már Bragason, varaformaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, ekki heldur gera í samtali við Vísi í kvöld. „Við erum ekki tilbúnir til að greina frá því strax. Við teljum að það hafi verið gerð mistök og viljum við að það verði skoðað," sagði hann.

Kærunni var vísað frá vegna formgalla af Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ í dag og hafa Keflvíkingar þrjá sólarhringa til að skila inn nýrri kæru. Það ætla Keflvíkingar að gera.

„Við erum að slípa hana til og við munum senda hana inn síðar í vikunni. Mér þykir afar ólíklegt að niðurstaða fáist í málið fyrir helgina," sagði Birgir Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×