Fótbolti

Turbine Potsdam tapaði óvænt stigum í fyrsta leik Margrétar Láru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Mynd/Stefán
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar hennar í 1. FFC Turbine Potsdam töpuðu óvænt stigum í dag þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Hamburger SV í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta en þetta var fyrsti leikur liðsins eftir vetrarfrí.

Hamburger SV var í næstneðsta sæti deildarinnar en hoppaði upp úr fallsæti með því að ná í þetta dýrmæta stig. Turbine Potsdam er enn á toppnum en liðið var búið að ná í 30 af 33 mögulegum stigum fyrir leikinn í dag.

Margrét Lára, sem var að spila sinn fyrsta alvöru leik með Turbine Potsdam kom inn á sem varamaður á 60. mínútu og fékk sitt fyrsta færi aðeins tveimur mínútum síðar. Hún fékk síðan algjört dauðafæri sjö mínútum fyrir leikslok en skot hennar fór rétt framhjá.

Aylin Yaren kom Hamburger SV í 1-0 á 48. mínútu en Patricia Hanebeck jafnaði leikinn á 72. mínútu en tólf mínútum fyrr hafði Margrét Lára komið inn á fyrir Svíann Antonia Göransson.

Það er stutt á milli leikja hjá Turbine Potsdam því liði mætir Bayer Leverkusen á heimavelli á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×