Fótbolti

Gladbach missteig sig í toppbaráttunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Nürnberg fagna í dag.
Leikmenn Nürnberg fagna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Gladbach tapaði í dag dýrmætum stigum í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinar er liðið mátti sætta sig við tap gegn Nürnberg á útivelli, 1-0.

Dortmund heldur því sjö stiga forystu á toppi deildarinnar með 55 stig en liðin í þremur næstu sætum á eftir - Bayern (48 stig), Gladbach (47 stig) og Schalke (44 stig) - töpuðu öll sínum leikjum um helgina.

Tíu leikir eru eftir af tímabilinu en Dortmund hefur unnið átta deildarleiki í röð og fátt sem bendir til að þeir gulklæddu muni gefa eitthvað eftir á lokasprettinum. Dortmund er þar að auki ríkjandi Þýskalandsmeistari.

Albert Bunjaku skoraði eina mark Nürnberg í dag en það gerði hann þremur mínútum fyrir leikslok.

Einn annar leikur var á dagskrá þýsku úrvalsdeildarinnar í dag. Hoffenheim og Köln gerðu 1-1 jafntefli. Hoffenheim er í tíunda sæti deildarinnar með 30 stig en Köln í því fjórtánda með 25.

Lukas Podolski, sem hefur verið sterklega orðaður við Arsenal að undanförnu, skoraði jöfnunarmark Köln á 81. mínútu. Marvin Compper skoraði mark Hoffenheim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×