Ungverjinn Daniel Gyurta kom fyrstur í mark í úrslitum í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í dag og setti um leið nýtt heimsmet.
Gyurta náði að standast áhlaup Bretans Michael Jamieson undir lokin en heimamaðurinn var dyggilega studdur af áhorfendum í sundhöllinni í London.
Gyurta kom í mark á tímanum 2:07.28 og bætti heimsmet Christan Sprenger frá Ástralíu um 3/100 úr sekúndu. Sprenger setti metið á heimsmesitaramótinu 2009 í sundgallanum sem síðan hefur verið bannaður.
Japaninn Kosuke Kitajima, sem sigraði bæði í 100 metra og 200 metra bringusundi á leikunum 2004 og 2008, hafði forystu fyrri hluta sundsins. Gyurta sigldi fram úr honum á þriðja legg sundsins en mátti svo hafa sig allan við þegar Jamieson sótti hart að honum undir lokin.

