Viðskipti innlent

Konur löngu tilbúnar til að stíga fram í atvinnulífinu

BBI skrifar
Íslenskar konur eru tilbúnar til að stíga með auknum krafti inn í atvinnulífið og stjórnmálin. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtalsþættinum Klinkinu á Vísi. „Jájá, fyrir löngu síðan," bætti hún við en sagði að konur hafi gjarna mætt glerþaki og mæti enn.

Í Klinkinu, sem er viðtalsþáttur um efnahags- og þjóðfélagsmál, ræddi Þorgerður Katrín m.a. um fyrirhugaðar lagabreytingar sem fela í sér að á næsta ári eiga 40% stjórnarmanna að vera konur í öllum félögum, stærri fyrirtækjum, lífeyrissjóðum o.s.frv.

Þorgerður segir að þessi lagabreyting sé nauðsynlegt skref. Hennar skoðun var áður sú að ekki bæri að fara valdboðsleiðina, þ.e. ekki ætti að neyða fyrirtæki til að hafa konur í stjórnum sínum. „Mér fannst ég sjá ákveðnar vísbendingar um að atvinnulífið vildi gera þetta sjálft," segir hún. „En síðan blasir veruleikinn við."

Veruleikinn bendir til þess að fyrirtækin muni ekki sjá til þess sjálf að konum fjölgi í stjórnum. Þess vegna telur hún „því miður" nauðsynlegt að fara þá leið að setja lög um málefnið. Hún bendir á að konur geti ýtt undir fjölbreytileika og víðari sjónarhól í stjórnum fyrirtækja. Því telur hún að konur verði að láta sig stjórnmál og stjórnir fyrirtækja varða.

Hún vonast til þess að fyrirtækin verði búin að breyta þessu flest áður en lagasetningin tekur gildi.

Á hlekknum hér að ofan má sjá þáttinn í heild sinni. Á mínútu 11:30 hefjast umræðurnar um þessi málefni kvenna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×