Fótbolti

Tvö mörk Börsunga á síðustu mínútunum - með 11 stiga forskot á Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi fagnar hér marki sínu í kvöld.
Xavi fagnar hér marki sínu í kvöld. Mynd/AFP
Það tók Barcelona-menn 86 mínútur að finna leiðina framhjá Tono, markverði Granada í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Xavi skoraði markið á 87. mínútu og Granada-liðið skoraði síðan sjálfsmark í uppbótartíma. Barcalona vann því leikinn 2-0 og er með fullt hús á toppnum eftir fyrstu fimm umferðirnar.

Barcelona er með 15 stig, fimm stigum meira en Málaga sem á leik inni á morgun. Börsungar hafa einnig 11 stigum meira en Real Madrid sem spilar á móti Rayo Vallecano á morgun.

Xavi kom inn á sem varamaður fyrir Thiago Alcántara á 53. mínútu og Barcelona var búið að vera í stórsókn allan seinni hálfleikinn þegar boltinn féll fyrir miðjumanninn snjalla á 87. mínútu.

Xavi tók við boltanum og lét vaða frá vítateigslínunni og boltinn fór í slánna og inn. Stórglæsilegt mark.

Lionel Messi bjó síðan til seinna markið í uppbótartíma en varnarmaður Granada skoraði þá sjálfsmark eftir fasta fyrirgjöf Argentínumannsins.

Barcelona-menn höfðu fengið full af færum en Tono var í miklu stuði í marki Granada og margir voru örugglega farnir að halda það að hann yrði ekki sigraður þegar kom að þessum meistaratöktum hjá Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×