Fótbolti

Norðmenn vilja fá nýja reglu inn í fótboltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
Norska knattspyrnusambandið hefur sett fram nýstárlega tillögu um reglubreytingu í fótboltaleikjum til að koma í veg fyrir niðurlægjandi úrslit hjá fótboltaleikjum hjá krökkum. Verdens Gang var með þessa frétt.

Norska sambandið leggur það til að að ef lið lendir 0-4 undir þá megi það bæta við tólfta manninum inn á völlinn. Henning Berg, fyrrum leikmaður Blackburn Rovers og Manchester United, er hrifinn af þessari tillögu.

„Þetta er góð regla sem hjálpar til að jafna leiki. Það er ekkert gaman að tapa 17-0 og það er heldur ekkert gaman að vinna 17-0," sagði Henning Berg við Verdens Gang.

Kjetil Rekdal, þjálfari Aalesund, er ekki sammála. „Það væri jákvætt að fleiri leikmenn fengju að spila en það er ekki sanngjarnt að refsa liðum fyrir að vera betri í fótbolta," sagði Rekdal við VG.

Nú er að sjá hvort norska sambandið kemst eitthvað áleiðis með þessa hugmynd sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×