Fótbolti

Aron á leið undir hnífinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/AGF
Aron Jóhannsson, sóknarmaður AGF, er á leið í aðgerð vegna kviðslits. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu 977 á laugardaginn.

Aron dvelur á Íslandi í jólafríi um þessar mundir. Aron sagði í viðtalinu að aðgerðin hefði komið í veg fyrir möguleika hans á því að fara í æfingabúðir bandaríska landsliðsins í janúar.

Mikið var fjallað um möguleika Arons á því að spila fyrir bandaríska landsliðið í knattspyrnu í síðustu viku. Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, hefur hringt í Aron oftar en einu sinni og hefur greinilega mikinn áhuga á sóknarmanninum.

Aron er markahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar með 14 mörk þegar árlegt vetrarfrí deildarinnar er hafið. Forráðamenn AGF reikna með að Aron verði frá keppi í þrjár til fjórar vikur. Hann mun mæta til æfinga viku á eftir félögum sínum en keppni hefst á nýjan leik í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×