Fótbolti

Búnir að finna nýtt met fyrir Messi að slá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi
Lionel Messi Mynd/Nordic Photos/Getty
Knattspyrnutölfræðingar hafa nú fundið nýtt met fyrir Lionel Messi til að slá en argentínski snillingurinn hefur verið afar duglegur að safna að sér markametum síðustu misserin. 85 ára markamet er nú í hættu haldi Messi áfram á sömu braut út leiktíðina.

Lionel Messi hefur skorað 33 mörk í 21 deildarleik til þessa á tímabilinu og er á góðri leið með að gera betur en á síðustu leiktíð þegar hann var með 50 mörk í 37 deildarleikjum sem er að sjálfsögðu markamet í spænsku deildinni.

Markametið á einu tímabilinu í einu af bestu deildum Evrópu á hinsvegar Dixie Dean sem skoraði 60 mörk fyrir Everton tímabilið 1927-28. Dean var kominn með 33 mörk eftir 21 leik alveg eins og Messi í vetur.

Messi hefur skorað 1,57 mörk að meðaltali í leik og haldi hann þessu meðalskori út tímabilið þá gerir það 59,7 mörk.

Messi hefur tólf marka forskot á Cristiano Ronaldo í baráttunni um markakóngstitilinn á Spáni og hefur auk þess skorað mun fleiri mörk en markahæstu menn í hinum stóru deildunum í Evrópu.

Zlatan Ibrahimovic hefur skoraði 19 mörk fyrir Paris Saint-Germain og er markahæstur í frönsku deildinni, Robin van Persie hefur skorað 18 mörk fyrir Manchester United og er markahæstur í ensku deildinni og þá er Edison Cavnai markahæstur á Ítalíu með 18 mörk fyrir Napoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×