Fótbolti

Bayern meistari í Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Bayern fagna í leikslok.
Leikmenn Bayern fagna í leikslok. Nordic Photos / Getty Images
Bayern München tryggði sér í dag þýska meistaratitilinn eftir 1-0 sigur á Frankfurt. Liðið er með 20 stiga forystu á toppnum þegar sex umferðir eru eftir.

Jupp Heynckes, stjóri Bayern, er að vinna sinn þriðja titil með liðinu en hina tvo vann hann tímabilin 1988-89 og 1989-90. Það eru því 23 ár síðan hann varð síðast meistari með Bayern.

Heynckes hætti hjá Bayern árið 1991 en kom svo aftur í skamman tíma árið 2009 áður en hann tók alfarið við liðinu á ný tveimur árum síðar. Hann hættir þó í sumar og Pep Guardiola tekur þá við liðinu.

Bayern hefur haft ótrúlega yfirburði í deildinni í vetur en engu liði hefur tekist að tryggja sér titilinn svo snemma á tímabilinu. Þetta er 22. titill félagsins frá upphafi sem er vitanlega þýskt met.

Bastian Schweinsteiger skoraði eina mark leiksins á 53. mínútu en David Alaba hafði reyndar klikkað á víti í fyrri hálfleik.

Dortmund er í öðru sæti með 55 stig en liðið vann Augsburg í dag, 4-2. Robert Lewandowski skoraði lokamark leiksins eftir að hafa komið inn á sem varamaður en hann hefur nú skorað í tíu deildarleikjum í röð.

Úrslit dagsins:

Gladbach - Greuter Fürth 1-0

Leverkusen - Wolfsburg 1-1

Dortmund - Augsburg 4-2

Frankfurt - Bayern 0-1

Bremen - Schalke 0-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×