Fótbolti

Arnór með tvö mörk í stórsigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Smárason.
Arnór Smárason. Mynd/Nordic Photos/Getty

Arnór Smárason er loksins laus við meiðslin og skoraði tvö mörk fyrir Esbjerg í 6-2 sigri á Odense í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Íslendingaliðin SönderjyskE og Randers unnu bæði sína leiki en FCK Kaupmannahöfn tapaði.

Arnór Smárason skoraði bæði mörkin sín í seinni hálfleik. Hann kom Esbjerg í 3-2 á 52. mínútu og innsiglaði síðan sigurinn með því að skora sjötta markið í lok leiksins. Arnór hefur nú skorað 5 mörk í síðustu sex deildarleikjum sínum og er kominn á fullt eftir langvinn meiðsli.

Hallgrímur Jónasson spilaði allan leikinn í 4-2 heimasigri SönderjyskE á móti Horsens. SönderjyskE lenti 0-1 undir en lék manni fleiri allan seinni hálfleikinn þar sem liðið skoraði öll fjögur mörkin sin.

Sölvi Geir Ottesen, Ragnar Sigurðsson og Rúrik Gíslason voru allir í byrjunarliði FC Kaupmannahöfn sem tapaði 0-1 á útivelli á móti Theódóri Elmari Bjarnasyni og félögum í Randers. Pierre Boya skoraði sigurmark Randers einni mínútu fyrir leikslok. Randers tryggði sér þriðja sætið með þessum sigri en FCK er fyrir löngu orðið danskur meistari.

Bjarni Þór Viðarsson var allan tímann á bekknum þegar Silkeborg gerði 1-1 jafntefli á heimavelli á móti Midtjylland. Daniel Flyger skoraði jöfnunarmark Silkeborg á 90. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×