Fótbolti

Hólmfríður skoraði og Guðbjörg hélt hreinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Mynd/Stefán

Íslensku landsliðskonurnar og vinkonurnar Hólmfríður Magnúsdóttir og Guðbjörg Gunnarsdóttir voru í sviðsljósinu þegar Avaldsnes vann 2-0 heimasigur á Sandviken í norsku kvennadeildinni í dag. Íslendingaliðin Arna Bjørnar, Kolbotn og Vålerenga töpuðu öll stigum á heimavelli.

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði seinna mark Avaldsnes í 2-0 sigri á Sandviken en markið hennar kom á 69. mínútu leiksins. Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki liðsins og þær Mist Edvarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir voru einnig í byrjunarliðinu. Hólmfríður hefur nú skorað fjögur mörk á tímabilinu og sigurinn kemur liðinu upp í 5. sætið.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék allan leikinn með Arna Bjørnar sem gerði 2-2 jafntefli við Klepp á heimavelli. Gunnhildur Yrsa hefur verið fastamaður í sumar en liðið datt niður í 7. sæti deildarinnar.

Fanndís Friðriksdóttir var í byrjunarliði Kolbotn sem tapaði 0-4 á heimavelli á móti toppliði Stabæk en Kolbotn er áfram í 3. sæti deildarinnar.

Sandra Sif Magnúsdóttir var í byrjunarliði Vålerenga sem gerði 3-3 jafntefli á heimavelli á móti Amazon Grimstad. Norska landsliðskonan Solveig Gulbrandsen skoraði tvö af mörkum Vålerenga í leiknum. Sandra Sif fékk gula spjaldið á 89. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×