Körfubolti

NBA: Indiana jafnaði metin á móti Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Indiana Pacers,  Ian Mahinmi og Paul George,  fagna hér í nótt.
Leikmenn Indiana Pacers, Ian Mahinmi og Paul George, fagna hér í nótt. Mynd/NordicPhotos/Getty

Indiana Pacers vann meistarana í Miami Heat í Miami í nótt 97-93 og jafnaði þar með metin í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta. Miami vann fyrsta leikinn í framlengingu en tapið í nótt var aðeins það fjórða í 50 leikjum hjá Miami-liðinu.

Miami réð lítið við miðherjann Roy Hibbert inn í teig en hann var með 29 stig og 10 fráköst fyrir Indiana. "Við höfum ekki afrekað neitt ennþá. Við unnum bara einn leik og mörgum okkar finnst við eiga að vera 2-0 yfir," sagði Hibbert eftir leikinn.

Paul George skoraði 22 stig, George Hill var með 18 stig og David West bætti við 13 stigum.

LeBron James var langstigahæstur hjá Miami með 36 stig en hann tapaði boltanum tvisvar á lokamínútunni sem reyndist liðinu dýrkeypt.

Indiana-liðið var 53-40 yfir þegar langt var liðið á annan leikhlutann en Miami minnkaði muninn í 53-47 fyrir hálfleik. Seinni hálfleikurinn var jafn en Miami virtist vera að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhlutanum.

Indiana átti hinsvegar lokaorðið, vann lokamínúturnar 13-5 og tryggði sér sigur. Næsti leikur er í Indianapolis á morgun.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×