Keflavík fann í kvöld arftaka Sigurðar Ingimundarsonar en félagið réð þá Bandaríkjamanninn Andy Johnston sem þjálfara karla- og kvennaliðs félagsins.
Johnston er 48 ára Bandaríkjamaður og hann hefur yfir 20 ára reynslu af körfuboltaþjálfun.
Síðustu fimm ár hefur hann verið aðstoðarþjálfari hjá St. Francis College.
Tímabilið 2007-2008 þjálfaði hann lið PUHU í 1. deildinni í Finnlandi við góðan orðstír en vegna fjárhagsörðugleika hélt hann ekki áfram með liðið. Fram að tímabilinu í Finnlandi þjálfaði hann hjá hinum ýmsu háskólum í Bandaríkjunum.
Samningur Johnston við Keflavík er til tveggja ára.
Keflavík tilkynnti einnig í kvöld að félagið væri búið að semja til tveggja ára við Þröst Leó Jóhannsson. Hann er uppalinn hjá félaginu en hefur leikið með Tindastóli síðustu tvö ár.
Bandaríkjamaður þjálfar Keflavíkurliðin
