Innlent

Forsetinn staðfestir lögin

Forseti Íslands hefur ákveðið að staðfesta lög um veiðileyfagjaldið.
Forseti Íslands hefur ákveðið að staðfesta lög um veiðileyfagjaldið.
Forseti Íslands hefur ákveðið að staðfesta lög um veiðileyfagjaldið sem miða að lækkun veiðileyfagjalda sem samþykkt var í síðustu viku.

Í yfirlýsingu sem Ólafur Ragnar Grímsson las upp á Bessastöðum sagði hann að lögin fælu ekki í sér grundvallarbreytingu á nýtingu auðlindarinnar og að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu fælu í sér svo afdrifaríkt fordæmi að víðtækar umræður og afar breiður þjóðarvilji þyrfti að vera á bak við slíka nýskipan.

Þá sagði forsetinn að lögin fælu í sér að þau yrðu endurskoðuð á næsta þingi og hvatti þingheim að kappkosta við að ná sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslur af þjóðarauðlindinni til handa almenningi.

Forsetanum voru afhentar undirskriftir 35 þúsund einstaklinga sem mótmæltu nýjum lögum. Ólafur Ragnar sagði sá fjöldi undirskrifta sem honum barst vegna málsins sýndu að almenningur hefur ríkan vilja og sterka réttlætiskennd í þessu máli.

Ólafur Ragnar sagði einnig að lög sem hann hafði áður vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu hefðu varðað grundvallaratriði í lýðræðisskipan eða efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Hann segir lögin nú ekki fela í sér grundvallarbreytingu á nýtingu auðlindarinnar, heldur kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins.

Hér má lesa yfirlýsingu forsetans í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×