Fótbolti

Nýr þjálfari Barcelona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Martino.
Martino. Nordicphotos/getty
Gerardo Martino verður nýr þjálfari knattspyrnustórveldisins Barcelona. Guardian greinir frá þessu á vefsíðu sinni.

Barcelona mun semja við Argentínumanninn til þriggja ára en spænski risinn tilkynnti á föstudag að Tito Vilanova þyrfti að láta af starfi vegna veikinda.

Barcelona ræddi við Martino fyrir helgi eða um leið og ljóst varð að Vilanova myndi hætta. Samkomulag náðist við hann á símafundi í morgun. Reiknað er með að Martino verði kynntur til leiks á næstu dögum.

Martino er fimmtugur og er leikjahæsti leikmaður í sögu Newell's Old Boys í Argentínu. Hann þjálfaði landslið Paragvæ í fimm ár og stýrði liði Newell's Old Boys í undanúrslitin í Suður-Ameríkubikarnum á síðustu leiktíð.

Martino lék á sínum tíma undir stjórn landa síns Marcelo Bielsa sem gert hefur góða hluti með lið Athletic Bilbao undanfarin tvö ár auk þess að stýra bæði landsliðum Chile og Argentínu. Hann er sagður undir miklum áhrifum Bielsa þegar kemur að þjálfarafræðum.

Ekki er talið að Martino verði þó kominn til Spánar þegar heimamenn mæta Bayern München í æfingaleik á miðvikudag. Þjálfari Bæjara er Pep Guardiola, fyrrum leikmaður og þjálfari Barcelona.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×