Körfubolti

Pirrandi að vera hægari en venjulega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Valli
Jón Arnór Stefánsson gengur ekki alveg heill til skógar en ætlar samt að gefa allt sitt í komandi leik Íslands í undankeppni EM í körfu. Íslenska liðið mætir Búlgaríu í Laugardalshöllinni á morgun og spilar síðan við Rúmena á föstudagskvöldið.

Jón Arnór var ekki sáttur með sig í fyrri leiknum á móti Búlgaríu. „Ég er ekki í eins góðu standi og ég var kannski að reyna hluti sem ég ræð ekki við núna. Ég var að gera þetta í fyrra en líkamlega er ég ekki í eins góðu standi, búinn að æfa minna í sumar og er með smá meiðsli og eitthvað svoleiðis," segir Jón Arnór.

Hann mætir þó með jákvæðnina að vopni á morgun. „Við reynum bara að gleyma því og setja það til hliðar. Það verður ekkert svoleiðis á morgun (í kvöld) eða á föstudaginn. Ég ætla bara að reyna að hjálpa liðinu og gera þá hluti sem þarf til þess," segir Jón Arnór.

„Ég er ekki vanur því að vera í einhverjum meiðslapakka og það er pirrandi að vera hægari en venjulega og geta ekki alveg beitt sér eins. Ég þarf að finna einhvern veginn út úr því, ég er að reyna en hef ekki átt góða æfingu hingað til. Ég hugsa að æfingin í kvöld verði æfingin þar sem ég stend mig ágætlega. Svo verður leikurinn bara góður á morgun. Ég er bara spenntur og jákvæður og verða bara massa einbeittur í leiknum," segir Jón Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×