Fótbolti

Messi klikkaði á víti en Barca vann samt fyrsta titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Barcelona landaði fyrsta titli tímabilsins í kvöld þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Atlético Madrid á heimavelli í seinni leik liðanna um spænska ofurbikarinn. Barcelona vann Ofurbikarinn á fleiri mörkum skoruðum á útivelli en Atlético Madrid endaði leikinn níu á móti ellefu því tveir leikmenn liðsins fengu að líta rauða spjaldið á lokamínútunum.

Lionel Messi gat tryggt Barcelona sigur í leiknum þegar hann tók víti á 89. mínútu leiksins en skaut þá í slá. Barcelona vann ofurbikarinn á endanum á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.  

Brasilíumaðurinn Filipe Luís fékk rauða spjaldið á 81. mínútu fyrir brot á Daniel Alves og Tyrkinn Arda Turan fór sömu leið í uppbótartíma.

Brasilíumaðurinn Neymar tryggði Barcelona 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á heimavelli Atlético eftir að David Villa, fyrrum leikmaður Barcelona, hafði komið sínum mönnum yfir í fyrri hálfleiknum.

Þetta mark Neymar tryggði því Barcelona fyrsta titilinn eftir að hann kom til félagsins en Barcelona var að vinna spænska ofurbikarinn í fimmtánda sinn þar af í fjórða sinn á síðustu fimm árum.

Lionel Messi og Neymar voru báðir í byrjunarliði Barcelona og spiluðu allan leikinn. Þetta er fyrsti leikurinn þar sem þeir spila 90 mínútur saman. Messi átti ekki góðan dag og ýtir þetta undir kenningar manna að þeir geti ekki báðir blómstrað á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×