Körfubolti

LeBron James um mótherja kvöldsins í Chicago Bulls: Við þolum þá ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James
LeBron James Mynd/NordicPhotos/Getty
NBA-deildin í körfubolta byrjar í kvöld á rosalegum leik þegar NBA-meistarar Miami Heat taka á móti Chicago Bulls, liðinu sem flestir spá að verði þeirra helstu keppninautar um tititlinn í vetur.

Leikur Miami Heat og Chicago Bulls hefst á miðnætti og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.

Chicago Bulls vann alla átta leiki sína á undirbúningstímabilinu og hefur nú endurheimt leikstjórnanda sinn Derrick Rose sem missti af öllu síðasta tímabili. Þetta er því risaverkefni við Miami-liðið.

LeBron James og félagar í Miami Heat undirbjuggu sérstaklega fyrir harðar móttökur á æfingum sínum fyrir leikinn.

„Við þolum þá ekki og þeir þola ekki okkur. Það er ekkert nýtt og við þekkjum þetta allir,“ sagði LeBron James við blaðamenn í aðdraganda leiksins.

Leikmenn Miami Heat fá NBA-hringana sína í viðhöfn fyrir leikinn en Tom Thibodeau, þjálfari Chicago Bulls, ætlar að láta sína leikmenn bíða inn í búningsklefa á meðan.

„Þetta er þeirra athöfn en ekki okkar,“ sagði Derrick Rose. Hann var með 23,8 stig og 5,8 stoðsendingar að meðaltali á 29,6 mínútum í síðustu fimm leikjunum á undirbúningstímabilinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×