Brynjar Níelsson, sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík norður, segir samstarf við Framsóknarflokk valda honum verulegum áhyggjum ef af stjórnarmyndun verður.
„Það þarf mikla samningatækni til að koma þessu saman. Það verður hugsanlega sett eitthvað mjög loðið í stjórnarsáttmálann um þetta, notað eitthvað af einhverju einhvern tímann, ef þar að kemur. Það verður bara marklaust plagg,“ sagði Brynjar við fundargest sem gaf sér að sjálfstæðismenn færu í ríkisstjórnarviðræður við Framsóknarflokkinn á sunnudag.
Maðurinn hafði áhyggjur af því hvernig flokkurinn ætlaði að fara í samningagerð við Framsókn með „öllum þeim loforðum“ sem þeir síðarnefndu hafa haldið fram.
Sjálfstæðisflokkurinn er þriðja stjórnmálahreyfingin sem mætir til Reykjavíkurborgar til að kynna stefnumál sín. Samkvæmt fundargestum var um að ræða langfjölmennasta fundinn.
„Við ætlum að vera hérna með áróður,“ sagði Teitur Björn Einarsson, sem skipar 6. sæti í Reykjavík suður, í léttum tón á meðan hann útbýtti bæklingum til fundargesta, ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem skipar 11. sætið. Spurt var hvort ályktun landsfundar flokksins um lokun Evrópustofu stæði til.
„Nei, nei, hvað er þetta. Það er algjörlega andstætt flokknum að vera að loka frjálsum samtökum,“ svaraði Brynjar. „Það var ýmislegt samþykkt á þessum landsfundi. Vandamálið er að þetta verður aldrei í raun.“ Spurður hvort það sé þá ekki allt satt sem komi fram á landsfundi svaraði hann: „Nei, það er ekki alltaf sannleikurinn. Þetta er klúður og menn eru alveg sammála um það.“
Meðal fleiri viðfangsefna fundarins með starfsmönnum Reykjavíkur var lækkun skatta, bág staða ríkissjóðs, verðmætasköpun, gjaldeyrishöft, snjóhengjan, kröfuhafar, verðbólga, lán, hagvöxtur, gengisfall og gjaldmiðlar.
Heitar umræður sköpuðust að lokinni kynningunni, en Brynjar og Teitur rökræddu lengi um skuldamál og neysluskatta við konu sem talaði lengi og lá mikið á hjarta. Hún og Brynjar hækkuðu bæði róminn, en á meðan fór fólk að ókyrrast og tínast aftur til vinnu, enda klukkan orðin eitt.

Samstarfsmaður hans, Hans Heiðar Tryggvason, segir fundi sem þessa afar gagnlega, þótt hann sé búinn að ákveða hvað hann ætli að kjósa á laugardag.
„Þetta er mjög gagnlegt samt sem áður, sérstaklega með ný framboð,“ segir hann. „Þá sér maður þingmenn sem koma fram í mínu kjördæmi og hvaða áherslur þeir eru að boða, því stefnuskrá flokkanna segir mjög lítið. Maður sér líka hvernig þeir bregðast við spurningum og öðru slíku og það skiptir máli.“
Kollegarnir eru sammála um að frambjóðendurnir hafi staðið sig vel í spurningaregninu og komið svörunum vel frá sér.
Gústaf Ólafsson, starfsmaður Reykjavíkurborgar, er einnig ánægður með fundinn. Spurður hvernig honum fannst frambjóðendurnir svara spurningunum segir hann: „Bara svona eins og þeir gera, stjórnmálamennirnir.“