Bale er sjötti breski leikmaðurinn til þess að spila með spænska stórliðinu en fimm Englendingar hafa áður haldið á vit ævintýranna í spænsku höfuðborginni. Allir byrjuðu með ágætum nema einn.
Hér að neðan má sjá umfjöllun um Bretana sex sem klæðst hafa fræga hvíta búningnum. Fimm eru Englendingar auk Walesverjans Bale.

Kaupverð: 950 þúsund pund sumarið 1979.
Enski kantmaðurinn var keyptur frá West Brom og var fyrsti Bretinn á mála hjá Real. Cunningham var fyrsti þeldökki landsliðsmaður Englands.
Fyrsti leikur: Cunningham skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja í 3-1 sigri á Valencia. Átti erfitt með að festa sig í sessi á fjórum árum hjá Real. Lét lífið fyrir aldur fram í bílslysi árið 1989.

Kaupverð: Fór á frjálsri sölu frá Liverpool sumarið 1999.
Félagaskipti McManaman voru umdeild þar sem hann hafði neitað að framlengja samning sinn við Liverpool.
Fyrsti leikur: Lagði upp sigurmark í viðbótartíma í 2-1 sigri gegn Mallorca. Varð fyrsti Englendingurinn til að vinna Meistaradeildina með liði utan Evrópu og sá fyrsti til að vinna keppnina tvisvar. Starfar í dag í sjónvarpi.

Kaupverð: 35 milljónir punda sumarið 2003.
Beckham gekk í raðir Real Madrid frá Manchester United þrátt fyrir miklar vangaveltur um að Barcelona yrði áfangastaður hans.
Fyrsti leikur: Það tók Beckham aðeins þrjár mínútur að opna markareikning sinn hjá Real í 3-0 sigri á Mallorca í Ofurbikarnum. Beckham féll í ónáð hjá Fabio Capello en vann sig aftur inn í liðið sem hlaut spænska titilinn vorið 2007. Hélt í kjölfarið til L.A. Galaxy í Bandaríkjunum.

Kaupverð: 8 milljónir punda sumarið 2004.
Owen var markahæsti leikmaður Liverpool sjö tímabil í röð áður en hann hélt til Spánar. Var valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu árið 2001.
Fyrsti leikur: Owen kom inn á sem varamaður og lagði upp mark fyrir Ronaldo í 1-0 sigri á Mallorca. Owen skoraði þrettán mörk sitt eina tímabil með Real. Í kjölfarið flakkaði hann frá Newcastle til Manchester United áður en hann lagði skóna á hilluna sem leikmaður Stoke í vor.

Kaupverð: 13 milljónir punda sumarið 2004.
Kaupin á Woodgate komu töluvert á óvart enda hafði hann langa meiðslasögu að baki. Hann var meiddur við komuna til Madrídar og spilaði ekkert fyrstu leiktíðina.
Fyrsti leikur: Woodgate skoraði sjálfsmark og var rekinn af velli með sitt annað gula spjald um miðjan síðari hálfleik í 3-1 sigri Real á Athletic Bilbao. „Þetta var ekki hin fullkomna byrjun,“ sagði Woodgate eftir leikinn. Spilar í dag með Middlesbrough í Championship-deildinni.

Kaupverð: 86 milljónir punda í ágúst.
Marga rak í rogastans þegar Wales-maðurinn var seldur fyrir hæstu upphæð sögunnar til Real Madrid eftir langar samningaviðræður Real Madrid við Tottenham.
Fyrsti leikur: Gareth Bale opnaði markareikning sinn í 2-2 jafntefli gegn Villarreal á útivelli á laugardagskvöldið. Wales-maðurinn átti þó engan stjörnuleik en létti vafalítið pressunni á sér með markinu. Ballið er rétt að byrja hjá Bale.