Körfubolti

NBA í nótt: Oklahoma City aftur á sigurbraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oklahoma City styrkti stöðu sína á toppi vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í nótt en þá fóru ellefu leikir fram.

Oklahoma City vann Memphis, 86-77, en þetta var 21. sigur liðsins á heimavelli í 24 leikjum í vetur. Liðið tapaði fyrir Washington um helgina eftir tíu sigurleiki í röð en komst aftur á beinu brautina í nótt.

Kevin Durant var með 31 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar og þá bætti Serge Ibaka við 21 stigi og tólf fráköstum.

Memphis hafði unnið sex leiki í röð fyrir leikinn í nótt en þeir Zach Randolph og Marc Gasol skoruðu þrettán stig hvor fyrir liðið.



Washington heldur áfram góðu gengi sínu en liðið vann Portland á heimavelli, 100-90. Liðið hefur nú unnið fleiri leiki en liðið hefur tapað í ár og er liðið því með jákvætt sigurhlutfall í fyrsta sinn í meira en fjögur ár.

John Wall skoraði 22 stig og Trevor Ariza 20 fyrir Washington sem gerði út um leikinn með öflugum síðari hálfleik. Damian Lillard skoraði 25 stig fyrir Portland.

San Antonio nýtti sér tap Portland og komst upp í annað sæti vesturdeildarinnar með sigri á New Orleans, 102-95. Tony Parker skoraði 32 stig í leiknum, þar af 21 í síðari hálfleik.



Tvö efstu lið austurdeildarinnar, Indiana og Miami, unnu sína leiki í nótt en þessi lið eru með dágóða forystu á næstu lið.

LeBron James var hársbreidd frá sinni fyrstu þreföldu tvennu á tímabilinu er Miami vann Detroit, 102-96. Hann var með 24 stig, ellefu stoðsendingar og átta fráköst. Dwyane Wade átti einnig stórleik en hann skoraði 30 stig.

Úrslit næturinnar:

Indiana - Orlando 98-79

Washington - Portland 100-90

Brooklyn - Philadelphia 108-102

Miami - Detroit 102-96

Milwaukee - New York 101-98

New Orleans - San Antonio 95-102

Oklahoma City - Memphis 86-77

Dallas - Cleveland 124-107

Denver - LA Clippers 116-115

Utah - Toronto 79-94

Sacramento - Chicago 99-70

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×