Fótbolti

Björn Bergmann hefur ekki áhuga á fótbolta

Björn í leik með Úlfunum.
Björn í leik með Úlfunum. vísir/getty
Björn Bergmann Sigurðarson, leikmaður Molde, viðurkennir í viðtali við VG það sem marga hefur grunað. Hann hefur engan áhuga á fótbolta.

"Hann hefur ótrúlega lítinn áhuga á fótbolta. Hann horfir ekki á leiki í frítíma sínum. Hann myndi frekar fara út í garð heima hjá sér en að horfa á leik Barcelona og Real Madrid," sagði Stale Solbakken, fyrrum þjálfari Björns.

Leikmaðurinn segir Solbakken ekkert vera að ýkja.

"Ég held ég hafi ekki séð leik hjá Barcelona og Real Madrid. Ég hef ekki áhuga á fótbolta. Kærastan mín hefur aftur á móti áhuga þannig að ég þarf stundum að horfa með henni," segir Björn en af hverju hefur hann ekki áhuga á leiknum sem hann hefur atvinnu af að spila?

"Ég veit það ekki. Ég er í fótbolta allan daginn og af hverju ætti ég þá að horfa á fótbolta þegar ég er í fríi? Þá vil ég frekar horfa á kvikmyndir eða góða þætti."

Björn hefur ekki viljað gefa kost á sér í íslenska landsliðið.

"Minn metnaður liggur í því að standa mig vel fyrir félagið mitt. Ég hef ekki áhuga á að spila meiri fótbolta. Það er skrítið. Ég veit ekki af hverju ég vil ekki spila fyrir landsliðið. Kannski af því ég hef svo lítinn áhuga á fótbolta," segir Björn.

"Svona er ég bara. Í framtíðinni mun ég samt örugglega gefa kost á mér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×