Nýliðar Tindastóls í Domino's deild karla hafa fengið góðan liðsstyrk fyrir átök næsta vetrar, en Darrel Lewis hefur gengið til liðs við Stólana frá Keflavík.
Þetta kemur fram á heimasíðu Tindastóls, en þar segir m.a. að stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls telji að "Darrel Lewis sé sá leikmaður sem liðið þarfnist fyrir átök vetrarins og geti hjálpað okkar liði í að ná árangri."
Lewis, sem er 38 ára, skoraði 19 stig, tók sex fráköst og gaf 3,2 stoðsendingar að meðaltali í leik með Keflavík á nýafstöðnu tímabili.
Lewis kom fyrst til Íslands fyrir rúmum áratug. Hann lék með Grindavík 2002-2005, en á þessum þremur árum skoraði hann að meðaltali 26,6 stig í leik, tók 7,5 fráköst og gaf 5,5 stoðsendingar.
Eftir að hafa spilað á Ítalíu og í Grikklandi kom Lewis aftur til Íslands sumarið 2012 og gekk í raðir Keflavíkinga.
Lewis, sem lék með liði Lincoln háskólans í Pennsylvaníu á árunum 1996-1999, fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember 2004. Hann lék fjóra leiki með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Andorra 2005 og skoraði í þeim 28 stig, eða sjö stig að meðaltali í leik.
Stólarnir styrkja sig
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
