Annan daginn í röð hefur einn forráðamanna Barcelona tjáð sig um Úrúgvæjann Luis Suarez, leikmann Liverpool.
Andoni Zubizarreta, yfirmaður íþróttamála, sagði Suarez hafa sýnt auðmýkt þegar hann baðst afsökunar á að hafa bitið Giorgio Chiellini, leikmann Ítalíu, í leik liðanna á HM í Brasilíu.
Forseti félagsins, Josep Maria Bartomeu, tók svo í svipaðan streng á blaðamannafundi í dag. „Það er ekki auðvelt að viðurkenna mistök sín. Ég tel afsökunarbeiðnina honum til tekna,“ sagði forsetinn.
Í gærkvöldi greindu fjölmiðlar á Englandi og Spáni frá því að fulltrúar félagsins myndu hittast í Lundúnum í dag til að ræða kaup Börsunga á Suarez.
Fullyrt er að Liverpool meti Suarez á 80 milljónir punda, um 15,5 milljarða króna, og vilji að Alexis Sanchez verði hluti af kaupverðinu.
Forráðamenn Börsunga eru ekki sagðir reiðubúnir að greiða svo mikið fyrir kappann og þá er alls óvíst hvort Sílebúinn Sanchez hafi áhuga á að spila með þeim rauðklæddu í Bítlaborginni.
Forseti Barcelona lofar Suarez

Tengdar fréttir

Suarez viðurkennir að hafa bitið Chiellini og biðst afsökunar
Luis Suarez, framherji Úrúgvæ og Liverpool, hefur nú loksins beðist afsökunar á hegðun sinni í leiknum á móti Ítalíu í síðustu viku þegar hann var uppvís að því að bíta ítalska varnarmanninn Giorgio Chiellini.

Kæmi Fowler ekki á óvart ef Suárez yrði seldur
Robbie Fowler hefur fengið nóg af hegðun Luis Suárez og myndi selja hann í sumar til þess að losna við vandræðin sem fylgja honum.

Maradona stendur við bakið á Suárez
Diego Maradona, einn af bestu fótboltamönnum allra tíma stendur þétt við bakið á Luis Suárez.

Chiellini: Suarez fékk of harða refsingu
Giorgio Chiellini, ítalski varnarmaðurinn og fórnarlamb bitsins hjá Luis Suarez, er á því að refsing Luis Suarez sé of hörð en þetta kemur fram í yfirlýsingu inn á heimasíðunni Ítalans.