Rúmlega helmingur dýranna í garðinum hefur látist í átökunum sem nú hafa staðið yfir í á annan mánuð, bæði vegna loftárása og sprengjubrota af þeirra völdum sem og úr hungri en starfsmenn spítalans hafa lítið getað hlúð að dýrunum á síðustu vikum.
Dýragarðurinn er rústir einar, þriggja hæða skrifstofubygging garðsins var jöfnuð við jörðu og fjöldinn allur af sprengjugígum setja svip sinn á gangbrautir og göngustíga.
Meðal eftirlifanda er bavíani einn sem sat hreyfingarlaus í búri sínu þegar fréttamaður Al Jazeera kannaði garðinn en við hlið hans lágu lík kvendýrs og tveggja ungviða. Þegar starfsmenn dýragarðisins reyndu að fjarlægja líkin brást apinn ókvæða við og réðst að mönnunum svo að ákveðið var að skilja þau eftir.

Ljónin þrjú sluppu þó ómeidd, enda búr þeirra sterkbyggðara en annarra dýra. Þau eru þó illa á sig komin vegna sultar en mataræði þeirra krefst þess að nærliggjandi sláturhús séu í fullri vinnslu. Þau skortir einnig nauðsynleg lyf sem eru ófáanleg á Gasasvæðinu og ómögulegt er að flytja þau inn frá Egyptalandi í núverandi árferði.
Alls er talið að sjö apar, tveir strútar, dádýr, lamadýr, tveir storkar, broddgeltir og átta ernir hafi fallið á síðustu dögum í garðinum sem hýsti um 50 dýr áður en átökin brutust út.

