Sport

Ásdís aðeins einu sæti frá úrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. Mynd/icelandathletics á instagram
Spjótkastaranum Ásdísi Hjálmsdóttur tókst ekki að tryggja sér sæti í úrslitum í spjótkastkeppni Evrópumótsins í Zürich í Sviss. Hún endaði í 13. sæti í undankeppninni en tólf efstu fóru í úrslit.

Ásdís kastaði lengst 56,36 metra í öðru kasti sínu en hin sænska Sofi Flink var sú síðasta inn í úrslit með kast upp á 57,53 metra. Ásdís var því meira en metra frá því að komast í úrslitin.

Ásdís náði þremur gildu köstum en hún kastaði fyrst 55,81 metra, þá 56,36 metra og loks 54,4 metra í lokakastinu þegar hún vissi að hún þyrfti að bæta sig töluvert.

Ásdís kastaði 57,65 metra á HM í Moskvu í fyrra en þá endaði hún í 21. sæti í undankeppninni.

Þetta er níunda stórmót Ásdísar og hún hefur aðeins tvisvar komist í úrslitin - á EM í Barcelona 2010 og á ÓL í London 2012 þegar hún setti Íslandsmet sitt er hún kastaði 62,77 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×