Fótbolti

Tveir Íslendingar skoruðu hjá landsliðsmarkverðinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór Halldórsson hefur verið frábær í marki botnliðsins.
Hannes Þór Halldórsson hefur verið frábær í marki botnliðsins. mynd/sandnesulf.no
Viking frá Stafangri gerði í  ellefta sinn jafntefli í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, nú gegn botnliðinu Sandnes Ulf, 2-2, í Íslendingaslag.

Þrír Íslendingar; Jón Daði Böðvarsson, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Sverrir Ingi Ingason, voru í byrjunarliði Viking og Björn Daníel Sverrisson byrjaði á bekknum.

Hannes Þór Halldórsson var að sjálfsögðu í marki heimamanna í Sandnes og þá byrjaði framherjinn Hannes Þ. Sigurðsson leikinn. Eiður Aron Sigurbjörnsson sat allan tímann á bekknum.

Randall Brenes kom Sandnes yfir á 39. mínútu, en Steinþór Freyr Þorsteinsson jafnaði metin, 1-1, tveimur mínútum síðar.

Aftur skoraði Brenes á 53. mínútu í seinni hálfleik, en þegar tíu mínútur voru til leiksloka fengu gestirnir vítaspyrnu.

Björn Daníel, sem var kominn inn á sem varamaður, tók spyrnuna, en lét Hannes Þór verja frá sér. Boltinn barst þó aftur til Björns sem tók frákstaði og skoraði, 2-2.

Viking er í sjötta sæti deildarinnar með 32 stig, en Sandnes á botninum með 13 stig, átta stigum frá öruggu sæti þegar níu umferðir eru eftir.

Í Svíþjóð vann Helsingborg sigur á Mjällby á útivelli, 2-1. Guðlaugur Victor Pálsson var í byrjunarliði gestanna og spilaði allan leikinn, en Arnór Smárason var ekki í leikmannahópnum. GuðmannÞórisson var heldur ekki í leikmannahópi heimamanna.

Helsingborg í áttunda sæti með 26 stig en Mjällby í næstneðsta sæti með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×