Fótbolti

Viðar er sex mörkum frá markametinu í Noregi

Viðar Örn hefur verið algjörlega óstöðvandi á þessu tímabili.
Viðar Örn hefur verið algjörlega óstöðvandi á þessu tímabili. mynd/valerenga
Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson er á hraðleið að slá markametið í norska boltanum. Viðar skoraði þrennu í gær í 4-1 sigri Vålerenga á Haugesund.

Viðar Örn er þar með búinn að skora 24 mörk í 22 leikjum í deildinni. Markametið er 30 mörk en það setti Rosenborg-goðsögnin Odd Iversen árið 1968.

Næstu menn á metlistanum eru líka fyrrum leikmenn Rosenborg. Harald Martin Brattbak skoraði 28 mörk árið 1996 og Sigurd Rushfeldt skoraði 27 mörk tveim árum síðar.

„Ég hafði ekki hugmynd um að ég væri að nálgast metið. Takk fyrir að segja mér frá því," sagði Viðar Örn léttur við TV2 eftir leikinn í gær.

Það eru sjö umferðir eftir af norsku deildinni og Viðar Örn þarf sex mörk til þess að jafna markametið.

„Það er vel mögulegt að skora sex mörk í sjö leikjum," sagði Selfyssingurinn brattur.

Iversen skoraði sín 30 mörk í aðeins 18 leikjum en hann skoraði meðal annars sex mörk í 7-2 sigri á Vålerenga.

Aftur á móti hefur enginn skorað svona mikið í norsku deildinni á þessari öld. Thorstein Helstad skoraði 22 mörk árið 2007 en Viðar Örn er þegar búinn að slá það met.

Selfyssingurinn er einnig búinn að bæta félagsmet hjá Vålerenga. Enginn leikmaður í sögu félagsins hefur skorað eins mörg mörk á einni leiktíð. Metið var 23 mörk og það setti Jörn Andersen árið 1985.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×